Umhverfisstofnun

Friðlandið Surtsey – Surtseyjarstofa
Umhverfisstofnun hefur eftirlit með náttúru landsins og umsjón með náttúruverndarsvæðum. Á stofnuninni er unnið að friðlýsingu svæða, höfð umsjón með gerð verndaráætlana fyrir náttúruverndarsvæði og skráningu náttúruminja.
Hjá Umhverfisstofnun starfa sérfræðingar friðlanda sem sjá um rekstur, umsjón og eftirlit með friðlöndum, framfylgja verndaráætlun og sjá um rekstur og umsjón gestastofa.
Friðlandið Surtsey hefur, ásamt Eldey, hæsta verndargildi friðlýstra svæða hérlendis, og er bannað að fara út í eynna nema með leyfi Umhverfisstofnunar. Bann við ferðum út í Surtsey er vegna vísindarannsókna og vöktunar þar sem fylgst er með náttúrulegri þróun eyjarinnar. Friðlýsing Surtseyjar eykur vísindagildi hennar þar sem áhrifa mannsins er haldið í lágmarki. Til ráðgjafar um málefni friðlandsins er ráðgjafanefnd Surtseyjar sem er skipuð sex fulltrúum. Fulltrúar nefndarinnar eru frá Umhverfisstofnun, Surtseyjarfélaginu, Náttúrufræðistofnun Íslands, Hafrannsóknastofnun og Vestmannaeyjabæ.
Surtsey var samþykkt á heimsminjaskrá UNESCO sumarið 2008 sem einstakur staður náttúruminja á heimsmælikvarða. Í mati heimsminjanefndar UNESCO er sérstaklega tekið fram mikilvægi rannsókna og vöktunar á landnámi dýra og plantna ásamt þróun eyjunnar og framvindu lífríkis Surtseyjar fyrir heiminn.
Surtseyjarstofa, gestastofa Surtseyjar, er staðsett í Vestmannaeyjabæ. Surtseyjarstofa þjónar þeim tilgangi að taka á móti öllum þeim sem vilja fræðast og kynna sér náttúruperluna Surtsey. Í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík er sýning um Surtsey sem Náttúrufræðistofnun Íslands sá um að setja upp árið 2007. Sú sýning hefur nú verið flutt í Surtseyjarstofu í Vestmannaeyjum.
Starfsmaður Umhverfisstofnunar í Vestmannaeyjum og sérfræðingur friðlands Surtseyjar er:
Þórdís Vilhelmína Bragadóttir líffræðingur, netfang: thordis.bragadottir@umhverfisstofnun.is
Þórdís hóf störf hjá Umhverfisstofnun í janúar 2011 og er með starfsstöð í Þekkingarsetri Vestmannaeyja.
Friðlandið Surtsey á heimasíðu Umhverfisstofnunar.