Fimmtudaginn 24. júní s.l. fór fram í Þekkingarsetri Vestmannaeyja mjög áhugavert sjávarútvegserindi sem bar yfirskriftina Erum við að beita bestu tiltæku tækni, aðferðum og þekkingu við mat á fiskistofnum við Ísland? Erindin fluttu: Erlendur Bogason, atvinnukafari og eigandi Strýtan, Dive Center, Birkir Bárðarson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun og Þorteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar.
Frá upphafi árs 2018 hefur Þekkingarsetur Vestmannaeyja staðið fyrir mánaðarlegum erindum um sjávarútveg. Þetta erindi er hið 26 í röðinni. Fyrri erindi er hægt að sjá á heimsíðu Þekkingarseturs Vestmannaeyja hér. Erindin hafa bæði farið fram í Þekkingarsetrinu sem og á Zoom. Erindin á Zoom hafa verið öllum opin. Erindin eru mjög fjölbreytt og eiga erindi við fjölbreyttan hóp fólks sem starfar í sjávarútvegi og tengdum greinum.
Markmiðið með þessum erindum okkar er að hrista fólk í sjávarútvegi saman og draga fram áhugaverða hluti sem tengjast sjávarútvegi, þannig að fólk taki eitthvað nýtt með sér af erindunum. Í senn er þetta umræðu-, félags- og fræðsluvettvangur.
Þetta erindi var afmarkað við loðnu. En loðnan er gríðarlega mikilvægur fiskur í íslenskum sjávarútvegi bæði sem útflutningsvara en ekki síst sem ein helsta fæða okkar mikilvægustu bolfiskstofna s.s. þorsks, ýsu og ufsa – svo fátt eitt sé talið.
Hugmyndin að erindinu var sprottin upp úr áhugaverðum köfunarleiðangri sem Erlendur Bogason fór í þann 7. mars s.l. þegar hann kafaði ofan í loðnutorfu við Snæfellsnes. Myndefnið hefur kallað fram fjölmargar áhugaverðar spurningar m.a. um fjölda loðna sem eru áætlaðar eru í hverjum rúmmetra af sjó. Sjómönnum og fiskifræðingum hefur ekki alltaf borið saman um fjölda loðna í rúmmetra við mat á magni. Þekkingarsetrið ákvað að fá þá félaga til að fjalla um málið frá ólíkum hliðum.
Í erindi sínu fjallaði Erlendur um köfun sína, hugleiðingar henni tengdri og hvaða ávinning mætti hafa af köfunum við rannsóknir á fiskistofnum eins og loðnu. Erlendur stefnir á umfangsmikinn köfunarleiðangur þar sem hann ætlar að fylgja göngu loðnunnar á vetrarvertíð frá Austfjörðum uns stofninn hrygnir í lok vertíðar. Áhugavert verður að fylgjast með því verkefni.
Birkir og Þorsteinn fengu það hlutverk að skýra á einföldu máli hvernig loðnurannsóknir ganga fyrir sig og hvernig ákvarðanir tengdar rannsóknum og ráðgjöf gerast. Tíminn sem þeir höfðu var mjög skammur og málefnin nokkur og flókin. Á þessum stutta tíma tókst þeim, á meistaralegan hátt, að koma efninu skýrt frá sér þar sem kjarni málsins kom skýrt fram.
Birkir og Þorsteinn fengu tvær spurningar í lokin sem þeir svörðu vel.
Við viljum þakka Erlendi, Birki og Þorsteini fyrir áhugaverð erindi og fyrir að leggja sitt af mörkum inn í sjávarútvegsumræðuna.
Myndupptaka af erindinu í heild er hér
Glærur sem Birkir notaði í erindi sínu eru hér (kemur á næstu dögum)
Myndband Erlends er hér
Erindið er hið síðasta sem Hrafn Sævaldsson stýrir á þessum sjávarútvegsvettvangi, þar sem hann er að hverfa til nýrra starfa.
Ljósmyndina tók Einar Ásgeirsson. Tekið af vef Viðskiptablaðsins.