Í rúm 3 ár hefur Þekkingarsetur Vestmannaeyja staðið fyrir mánaðarlegum erindum um sjávarútveg, sjá hér. Síðustu mánuði hafa erindin farið fram á Zoom. Erindin eru öllum opin og allir geta tekið þátt. Verið er að höfða til fjölbreytts hóps sem tengist sjávarútveginum.
Fimmtudaginn, 24. júní kl. 12:00 verður haldið áhugavert erindi sem ber heitið Erum við að beita bestu tiltæku tækni, aðferðum og þekkingu við mat á fiskistofnum við Ísland?
Til að afmarka umræðuna ætlum við að skoða loðnuna, sem er gríðarlega mikilvægur fiskur í íslenskum sjávarútvegi bæði sem útflutningsvara en ekki síst sem ein helsta fæðuuppspretta okkar mikilvægustu bolfiskstofna s.s. þorsks, ýsu og ufsa – svo fátt eitt sé talið.
Erindið verður þríþætt. Framsögumenn verða Erlendur Bogason, atvinnukafari og eigandi Strýtan, Dive Center, Þorteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar og Birkir Bárðarson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun. Hugmyndin að erindinu er sprottin upp úr áhugaverðum köfunarleiðangri sem Erlendur fór í þann 7. mars s.l. þegar hann kafaði ofan í loðnutorfu við Snæfellsnes. Myndefnið er tilkomumikið og sýndi heim sem fæstir hafa séð áður. Myndefnið hefur kallað fram fjölmargar áhugaverðar spurningar m.a. um fjölda loðna sem eru áætlaðar eru í hverjum rúmmetra af sjó. Sjómönnum og fiskifræðingum hefur ekki alltaf borið saman um fjölda loðna í rúmmetta við mat á magni. Varpar myndefni Erlends nýju ljósi á ólíkt mat sjómanna og fiskifræðinga?
Erlendur er margreyndur kafari sem hefur um langt skeið tekið upp mikið af áhugaverðu myndefni neðansjávar m.a. um atferli fiska og umhverfi þeirra. Birkir og Þorsteinn búa yfir áratuga reynslu á vettvangi fiskivísinda m.a. við mat á stærð uppsjávarstofna.
Í erindinu ætlar Erlendur að birta nýtt myndefni, lýsa upplifun sinni af köfuninni, hvað fyrir augum bar og deila hugrenningum sínum um málefnið.
Birkir ætlar að fara stuttlega yfir loðnuvertíðina 2021 og greina frá helstu forsendum og sérkennum. Í einföldu máli fer hann yfir mat á stofnstærð s.s þéttleika, náttúrulegum dauða og aflareglu. Hann ætlar fara yfir þróun helstu forsenda á bak við stofnstærðina og hvort það séu tækifæri til að ná betri árangri með breyttum matsaðferðum sem og hvort myndefni Erlends bæti einhverju við núverandi þekkingu. Eru tækifæri til breyttra aðferða við rannsóknir og mælingar með nýrri tækni, nýjum tækjum og skipum?
Þorsteinn ætlar einnig að fjalla um myndefni Erlends. Breyta þessar upplýsingar einhverju? Hann ætlar að fara stuttlega yfir fyrirætlanir Hafró varðandi rannsóknir á loðnu og horfurnar. Þorsteinn ætlar að ræða áhrif alþjóðlegra rannsóknastofnana á mat á stofnstærð s.s. loðnu og skýra út hverjir taka nákvæmlega þessa ákvörðun eða koma að henni. Hvað þarf til s.s. fjármagn, svo rannsóknir á loðnu verði góðar að mati Hafró, en löngum hefur verið rætt um að fjármagn til loðnurannsókna, ekki síst grunnrannsókna, hafa ekki verið nægjanlegt svo hægt sé að standa vel að rannsóknum á þessum mikilvæga fiskistofni.
Í lokin verður boðið upp á að spyrja þessa þrjá aðila út í þeirra erindi.
Þeir sem vilja fá tilkynningar um erindin, s.s. áminningar og samantektir geta sent tölvupóst á mig á hrafn@setur.is og mun ég þá bæta viðkomandi á póstlista
Ef þið vitið um áhugasama aðila um málefnið þá er kærkomið að koma þessum skilaboðum til viðkomandi
Erindið verður á Zoom-tenglinum: https://us02web.zoom.us/j/89719898967
Tími: Fimmtudagurinn 24. júní, kl. 12:00. Þátttakendur geta tengst frá kl. 11.45. Erindinu mun ljúka stundvíslega kl. 13:00
Sjáumst á ZOOM