Pysjueftirlitið Brúsi bjargfasti hefur verið starfrækt frá 2003 en það er fólgið í því að krakkar sem finna lundapysjur vigta pysjurnar og skila inn gögnum eða koma með þær á Nárttúrugripa- og fiskasafnið þar sem þær eru vigtaðar og vængmældar. Þannig er hægt að fylgjast með ástandi pysjanna og hvenær þær yfirgefa holurnar.

Í lok pysjutímabilsins 2007 var hátt hlutfall af litlum og dúnuðum pysjum. Þær voru hafðar í pappakössum í bakherbergi og brátt varð vart þverfótað fyrir pappakössum þar. Þá kviknaði sú hugmynd að hafa samkeppni um hönnun á góðri aðstöðu fyrir þessar pysjur undir nafninu Pysjuhótel. Að samkeppninni stóðu Náttúrugripa-og fiskasafn Vestmannaeyja, Þekkingarsetur Vestmannaeyja og Sparisjóður Vestmannaeyja.
Vorið 2008 fór fram samkeppni meðal grunnskólabarna í Vestmannaeyjum um hönnun á pysjuhóteli. Hugmyndaauðgi krakkanna var ótrúleg og frábærar hugmyndir bárust í samkeppnina. Sparisjóður Vestmannaeyja veitti verðlaun í samkeppninni en hann er einnig styrktaraðili pysjueftirlitsins. Verðlaunin voru veitt þann 7. nóvember s.l. við opnun sýningarinnar Sambýli manns og lunda í Náttúrugripa- og fiskasafni Vestmannaeyja.
Hugmynd Kristberg Gunnarssonar hlaut fyrstu verðlaun. Hugmyndin var bæði sniðug og vel útfærð. Einnig þótti hún henta mjög vel fyrir aðstöðuna á Náttúrugripa-og fiskasafninu og ákveðið var að smíða pysjuhótel eftir hugmyndinni, sem verður notað á næsta pysjutímabili.
Fimm önnur verkefni deildu með sér verðlaunum fyrir 2.-3. sætið, því of erfitt reyndist að gera upp á milli þeirra. Krakkarnir sem komu að þeim heita ArnarGauti Grettisson, Magnús Karl Magnússon, Guðdís Jónatansdótir, Konrad Parasinski, Hlynur Georgsson, Eydís Ösp Karlsdóttir og Sara Hlín Sölvadóttir.
Hugmynd Guðdísar: Glæra 1
Hugmynd Hlyns: Glæra 1
Verðlaunaafhendingin var haldin á safnanótt og myndir frá hátíðinni má sjá í myndasafni Setursins. Myndirnar eru teknar af kristjáni Egilssyni, forstöðumanni Náttúrugripa- og fiskasafns Vestmannaeyja.